Stóra stundin nálgast!

Stóra stundin nálgast!

Helstu fjölmiðlar landsins hafa fjallað ítarlega um endurkomu Tjörnes United á knattspyrnuvöllinn enda hefur viðburðurinn vakið víðáttumikla athygli bæði til lands og sjávar. Fjöldi fólks vinnur nú að því að láta dæmið ganga upp. Að sögn Palla Rikka vallarvarðar og miðvarðar Tjörnesinga er unnið öturlega að því að slá og merkja völlinn svo hann verði boðlegur gömlum og þreyttum æðarhnútaleggjum Tjörnesinga. Þá er Henson með 27 starfsmenn á vöktum við að sauma búninga á liðið. Halldór í Henson reiknar með að jafnmikið efni fari í búningana okkar eins og fór samanlagt í búninga allra liðsmanna sem leika með liðum í Landsbankadeildinni. Hann hlýtur að hafa misskilið pöntunina því þegar búningarnir voru pantaðir var þess getið að þungavigtarliðið Tjörnes United ætlaði að koma saman og leika einn leik í tilefni að því að um 25 ár væru liðin frá gullaldarárum liðsins. Vissulega eru flestir liðsmenn aðeins stærri og meiri en þeir voru á sínum yngri árum en varla svo að þetta sé rétt hjá Henson.

Sveinn Rúnar Arason hefur tekið að sér það erfiða verkefni að dæma leikinn en hann dæmdi flesta okkar leiki á sínum tíma. Rúnar hefur hafið leit af gömlu flautunni sinni og dómarabúningnum. Hann sagðist ekki eiga spjöldin lengur sem hann veifaði í tíma og ótíma á okkur í denn. Þau væru orðin ónýt enda mikið notuð í okkar leikjum, sérstaklega rauða spjaldið. Einhverja hluta vegna var dómurum alltaf frekar illa við okkur því oftar en ekki vorum við ekki með fullmannað lið á vellinum. Okkar skýring er sú, að flestum dómurum hafi fundist eðlilegt að reka menn útaf úr okkar liði til að jafna leikinn fyrir hitt liðið.

Mývetningar hafa fallist á að spila við okkur og gamla góða keppnisskapið er alltaf til staðar hjá þeim því þeir hafa hafið æfingar og ætla sér sigur næsta laugardag. Ljóst er að vonbrigði þeirra verða mikil þar sem aldrei hefur verið hægt að bóka sigur á Tjörnes United.

Varðandi laugardaginn þá hafa flestir leikmenn Tjörnes United boðað komu sína í leikinn. Hugmyndin að hittast milli kl. 11:00 og 12:00 heima hjá Kúta að Baughól 31b. Hann hefur boðist til að taka á móti hópnum. Þar verður boðið upp á kaffi, te, rist og léttar veitingar fyrir leikinn. Guðbrandur Jónsson mætir á svæðið og fer yfir leikskipulagið og hjálp í viðlögum þegar hlúa þarf að löskuðum leikmönnum. Rifjaðar verða upp gamlar sögur og nýju búningarnir verða skoðaðir og úthlutað til leikmanna. Eftir það er ætlast til að menn taki því rólega til kl. 17:00 svo þeir stífni ekki upp. Þá er mæting í Sundlaug Húsavíkur þar sem við höfum fengið aðstöðu til að klæða okkur ásamt mótherjum okkar. Hugmyndin er að flestir, vonandi allir fari í búninga. Síðan kemur í ljós hvað menn treysta sér til að spila lítið. Leikurinn hefst tímanlega kl. 18:00.

Að leik loknum er okkur boðið í sundlaugina, gufu og heita potta. Þar verður leikurinn krufinn til mergjar og sagðar frekari sögur af okkar afrekum í gegnum tíðina, það er helstu afrekum annars þyrftum við alla helgina. Við höfum fengið leyfi til að hafa með okkur léttar veitingar í pottinn fyrir þá sem það vilja. Þegar við höfum lokið okkur af í sundlauginni lýkur samverustundinni okkar formlega. Án efa verður mjög gaman fyrir okkur að hittast þessa stund á laugardaginn og það er jafnframt ánægjulegt til þess að vita að nokkrir fyrrverandi leikmenn Tjörnesinga sem nú eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbæ og Akureyri ætla að gera sér ferð til Húsavíkur til að taka þátt leiknum. Gaman saman.

Að lokum er full ástæða til að þakka Guðmundi Halldórssyni málarameistara, Karólínu ÞH og Framsýn-stéttarfélagi fyrir stuðninginn en þessir aðilar eru aðalstyrktar aðilar leiksins.

Með kveðju!

Nefndin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Guð minn almáttugur, nú gerist eithvað.

S. Lúther Gestsson, 23.7.2008 kl. 19:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband