Fréttatilkynning!!

Fréttatilkynning!!

Risinn er vaknaður á nýrri öld!!

Á níunda áratug síðustu aldar sté fram á grasið frábært knattspyrnulið sem spilaði undir merkjum UMFT. Heimavöllur liðsins var við Félagsheimilið Sólvang á Tjörnesi. Einstakur völlur sem hallaði í allar áttir og var auk þess stundum hálf ófær vegna grassprettu sem hentaði klofstuttum leikmönnum afar illa. Völlurinn var oft eins og erfiður 18 holu golfvöllur með glompum og sandgryfjum. Í lok æfinga var ekki laust við að menn væru með snert af sjóriðu eftir hlaup og tæklingar út um allan völl.

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fékkst ekki leyfi frá KSÍ til að spila á vellinum. Hefði það fengist hefðum við örugglega unnið alla leiki Íslandsmótsins og rúmlega það. Þess í stað urðum við að leita í næsta hérað, það er Húsavíkur, til að fá löglegan völl til að spila á.

Strax frá fyrsta leik mátti sjá að þar var á ferð einstaklega létt leikandi lið sem átti framtíðina fyrir sér og yrði auk þess góð útflutningsvara. Þetta sáu kaupsýslumenn, bankastjórar og kaupmaðurinn á horninu. Enda fór það svo að velvildar maður liðsins sem fram að þessu hafði sérhæft sig í útflutningi á hrognum keypti búninga á liðið sem á stóð m.a. Export-Innport væntanlega í þeirri trú að geta hafið útflutning á knattspyrnumönnum, hver veit. Liðið okkar Tjörnes United er örugglega eina liðið í heiminum sem borið hefur þessi stóru orð, Export-Innport. Við Tjörnesingar vorum langt á undan okkar samtíð.

Þeirri skemmtilegu hugmynd hefur verið varpað fram að gamla góða liðið Tjörnes United komi saman á Mærudögum í sumar og taki einn léttan gannileik við einhverja andstæðinga sem við ráðum örugglega við. Eitt er víst að við þekkjum ekki hvernig er að tapa leik og því verðum við að finna lið sem við vinnum pottþétt. Leit er hafinn að slíku liði.

Það er von okkar sem stöndum fyrir þessum heimsviðburði að sem flestir sem spiluðu með Tjörnes á sínum tíma komi og taki þátt í þessum merka viðburði. Þeir sem treysta sér ekki til að spila með nokkrar mínútur eru velkomnir á bekkinn. Aðalmálið er að koma saman og rifja upp gamlar sögur frá þessum tíma sem nóg er af. Aðrir sem treysta sér til að spila þurfa ekki að kvíða neinu því Guðbrandur okkar Jónsson hefur boðað komu sína með sjúkratöskuna og mun hlúa að slösuðum og þeim sem verða fyrir hnjaski. Þá mun hann enn eiga Camel, Svala og kók í töskunni. Líklega er kælispreyjið sem var í töskunni komið yfir síðasta söludag en það má endurnýja það. Til umræðu er einnig að fá Magga Jónatans til að dæma leikinn en hann dæmdi okkur yfirleitt í vil. Reiknað er með að leikurinn fari fram á Húsavíkurvelli kl.17:30 laugardaginn 26. júlí. Þá er til skoðunar að við grillum saman eftir leikinn með fjölskyldum okkar.

Ákveðið hefur verið að boða til fundar um viðburðinn sunnudaginn 29. júní kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna á Húsavík. Þeir sem komast ekki á fundinn eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Kúta í síma 864-6604 því það þarf að liggja fyrir tímanlega hversu margir ætla að láta sjá sig því til stendur að kaupa búninga á liðið. Ef einhverjir hafa góðan aðgang að sponserum sem væru tilbúnir að styrkja okkur til búningakaupa væri það vel þegið. Þá fylgir hér með listi yfir þá leikmenn sem við munum eftir að hafi spilað með Tjörnes United. Ef þú sérð að við séum að gleyma einhverjum endilega hafðu þá samband við viðkomandi og boðaðu hann á fundinn eða okkur og við boðum hann.

Munið: Það þarf að liggja fyrir sunnudaginn 29. júní hverjir ætla að mæta til leiks eða á bekkinn laugardaginn 26. júlí og taka þátt í þessum merka viðburði. Allir saman nú!!!

 

Húsavík 23. júní 2008

Undirbúningshópurinn

 

UMF Tjörnes

Leikmenn:

Smári Kárason

Sveinn Egilsson

Gunnar Jóhannesson

Héðinn Jónasson

Stefán Jónasson

Guðmundur Jónsson

Sigurður Illugason

Magnús Hreiðarsson

Jósteinn Hreiðarsson

Páll Ríkarðsson

Kristján Eiðsson

Haukur Eiðsson

Bjarni Pétursson

Friðrik Jónasson

Þórir Aðalsteinsson

Aðalsteinn Á. Baldursson

Sigurður Dagbjartsson

Skarphéðinn Ómarsson

Eiríkur Guðmundsson

Óðinn Haraldsson

Baldur Ófeigur Einarsson

Unnar Jónsson

Guðbrandur Jónsson

Jóhann R. Pálsson

Örn Ólason

Þórsteinn Rúnar Þórsteinsson

Jónas Jónasson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 23.7.2008 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband